Ferill 263. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 263 . mál.


Ed.

468. Frumvarp til laga



um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, sbr. lög nr. 41/1973.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)


1. gr.

    4. tölul. 6. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 41/1973, orðist svo:
4.    Fyrir brot gegn 2., 3. og 4. mgr. 165. gr., svo og fyrir manndráp, líkamsmeiðingar, frelsissviptingu og önnur ofbeldisverk, sem framin eru í tengslum við brot á þessum ákvæðum, og enn fremur fyrir háttsemi sem alþjóðasamningur frá 23. september 1971 um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna og bókun við hann frá 24. febrúar 1988 taka til. Mál samkvæmt þessum tölulið skal þó aðeins höfða eftir fyrirskipun dómsmálaráðherra.

2. gr.


    120. gr. a, sbr. 2. gr. laga nr. 41/1973, orðist svo:
    Nú veitir maður vísvitandi rangar upplýsingar eða lætur uppi vísvitandi rangar tilkynningar, sem eru fallnar til að vekja ótta um líf, heilbrigði eða velferð manna um atriði, sem varða loftferðaöryggi eða öryggi í flughöfn, varðar það sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að þremur árum. Sömu refsingu varðar að útbreiða þess háttar orðróm gegn betri vitund.

3. gr.

    Síðasti málsliður 2. mgr. 165. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 41/1973, falli brott.

4. gr.

    Við 165. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 41/1973, bætist tvær nýjar málsgreinar, 3. og 4. málsgr., svohljóðandi:
    Sömu refsingu og í 2. mgr. þessarar greinar skal sá sæta sem með ofbeldi eða hótun um ofbeldi veitist að mönnum sem staddir eru í flughöfn ætlaðri alþjóðlegri flugumferð, enda valdi verknaður eða sé til þess fallinn að valda almannahættu.
    Ákvæði 166., 167. og 169. gr. eiga einnig við um brot á 2. og 3. mgr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.


    Hinn 23. september 1971 var í Montreal gerður alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna. Samkvæmt samningnum ber aðildarríkjum hans að uppfylla ákveðnar skyldur. Þau skuldbinda sig m.a. til að hafa þung refsiviðurlög í hegningarlögum við ofbeldi í loftfari á flugi, skemmdarverk á loftförum o.fl. og að hafa sérstök ákvæði um refsilögsögu í slíkum málum o.fl.
    Samningurinn öðlaðist gildi í janúar 1973. Hann hefur nú verið fullgiltur af rúmlega 100 þjóðum. Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 29. júní 1973, sbr. auglýsingu nr. 13 í C-deild Stjórnartíðinda 1973.
    Í febrúar 1988 stóð Alþjóðaflugmálastofnunin, ICAO, fyrir alþjóðlegri ráðstefnu í Montreal í þeim tilgangi að semja bókun við Montreal-samninginn frá 1971, er næði yfir ofbeldisverk í flughöfnum sem notaðar eru fyrir alþjóðlega flugumferð. Á ráðstefnunni var gengið frá bókun við samninginn og var hann undirritaður af Íslands hálfu. Íslensk þýðing bókunarinnar er birt sem fylgiskjal með frumvarpi þessu.

II.


    Um ofbeldisverknaði sem beinast gegn öryggi í alþjóðlegum flugsamgöngum er fjallað í ýmsum alþjóðlegum samningum. Samkvæmt þeim skuldbinda aðildarríki þeirra sig til þess annaðhvort að framselja þá sem fremja slíka verknaði til annars ríkis sem málið varðar eða að sjá til þess að höfðað verði refsimál gegn viðkomandi.
    Um flugrán fjallar samningur um að koma í veg fyrir ólöglega töku loftfara sem gerður var í Haag 16. desember 1970 (Haag-samningurinn).
    Montreal-samningurinn frá 1971 fjallar hins vegar um önnur brot en flugrán, sem beinast gegn öryggi flugsamgangna, svo sem ofbeldis- og skemmdarverk.
    Ísland gerðist aðili að báðum þessum samningum árið 1973. Áður en þeir voru fullgiltir var með lögum nr. 41/1973 bætt inn í almenn hegningarlög, nr. 19/1940, ákvæðum til að fullnægja skuldbindingum samkvæmt samningunum um rýmkaða refsilögsögu, flugrán o.fl.
    Bæði Haag- og Montreal-samningurinn fjalla um verknaði sem framdir eru um
borð í loftförum eða er beint gegn loftförum í notkun. Reynslan hefur sýnt að flughafnir, ætlaðar fyrir almenna alþjóðlega flugumferð, eru stundum vettvangur fyrir aðrar tegundir ofbeldisverka, sem beint er gegn alþjóðlegri flugumferð. Í slíkum tilfellum verða þeir fyrir tjóni sem þar eru fyrir tilviljun staddir þegar verknaður er framinn. Þetta á t.d. við um sprengjuárásir eins og þær sem á þessum áratug voru gerðar á alþjóðaflughafnirnar í Vín og Róm.
    Að tillögu laganefndar Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO, var ákveðið á þingi hennar haustið 1986 að nefndin skyldi hafa það sem forgangsverkefni að semja uppkast að alþjóðasamningi er fjallaði um ofbeldisverk í flughöfnum ætluðum fyrir almenna alþjóðlega flugumferð.
    Nefndin gerði síðan að tillögu sinni að um framangreint atriði yrði fjallað í bókun við Montrealsamninginn. Á ráðstefnu í Montreal í febrúar 1988 var síðan endanlega gengið frá bókuninni og hún lögð fram til undirritunar 24. sama mánaðar. Þann dag var hún þegar undirrituð af fulltrúum 47 ríkja þar á meðal allra Norðurlanda nema Finnlands sem undirritaði hana 16. nóvember 1988.

III.


    Áður en framangreind bókun frá 24. febrúar 1988 við Montreal-samninginn frá 1971 er fullgilt af Íslands hálfu er nauðsynlegt að breyta nokkrum greinum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. lög nr. 41/1973, til þess að tryggja að unnt sé að standa við þær skuldbindingar er af fullgildingu bókunarinnar leiða.
    Í a-lið 2. gr. í bókuninni er fjallað um ofbeldisverk gegn manni „at an airport“ og í b-lið sömu greinar um eyðileggingu og alvarlegar skemmdir á„the facilities of an airport“, og síðar í sama lið er fjallað um að raska starfsemi „the services of the airport“. Í frumvarpi þessu er notað orðið „flughöfn“ yfir öll framangreind tilfelli og er sú notkun þess orðs í samræmi við skýringu þess í Íslenskri orðabók Menningarsjóðs 2. útg. 1983, en þar er orðið flughöfn skýrt sem: (stór) flugvöllur með tilheyrandi afgreiðslubyggingum.
    Í b-lið 1. mgr. 2. gr. bókunarinnar er fjallað um verknaði sem eru fólgnir í því að eyðileggja eða valda alvarlegum eignaspjöllum á búnaði á eða við flugvelli sem þjóna alþjóðlegri flugumferð eða á loftförum þar stöddum, sem ekki eru í rekstri, eða raska starfsemi þjónustusvæðis slíkrar flughafnar, enda stofni slíkur verknaður eða sé líklegur til að stofna öryggi flughafnar í hættu. Ekki er talið nauðsynlegt að breyta íslenskri hegningarlöggjöf vegna
framangreindra ákvæða. Talið er að nægileg refsivernd gegn eignaspjöllum sé fólgin í 257. gr. almennra hegningarlaga og ef brot hefur í för með sér almannahættu geti 1. mgr. 165. gr. átt við eða 1. mgr. 4. gr. frumvarps þessa ef ofbeldi eða ofbeldishótun er beitt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er 4. tölul. 6. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1973, breytt á þann veg að refsilögsaga íslenska ríkisins nái til þeirra brota er bókunin tekur til. Auk þess eru gerðar smávægilegar breytingar á núverandi orðalagi.

Um 2. gr.


    Með 2. gr. laga nr. 41/1973 var bætt við 120. gr. almennra hegningarlaga nýju ákvæði, 120. gr. a, varðandi vísvitandi rangar upplýsingar eða tilkynningar sem eru til þess fallnar að vekja ótta um líf, heilbrigði eða velferð manna um atriði er varða loftferðaöryggi. Ákvæðið nær einnig til þess að breiða út slíkan orðróm gegn betri vitund.
    Í þessari grein frumvarpsins er bætt inn í greinina ákvæðum um að refsiverndin taki einnig til öryggis í flughöfn, en að öðru leyti er greinin óbreytt.

Um 3. gr.


    Í frumvarpinu eru þau efnisatriði sem hér eru felld niður flutt til og gerð að sjálfstæðri málsgrein, 4. málsgr., sbr. 4. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.


    Í þessari grein er lagt til að við 165. gr. almennra hegningarlaga verði bætt tveimur nýjum málsgreinum. Tilgangurinn er sá að tryggja að íslensk hegningarlög hafi ótvíræð refsiákvæði að geyma vegna þeirra verknaða er í bókuninni greinir.
    Í 1. mgr. greinarinnar er ákvæði um að sömu refsingu og í 2. mgr. 165. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 41/1973, skuli sá sæta sem með ofbeldi eða hótun um ofbeldi veitist að mönnum sem staddir eru í flughöfn ætlaðri alþjóðlegri flugumferð, enda valdi verknaður eða sé til þess fallinn að valda almannahættu.
    Samkvæmt greininni er brotavettvangur flughöfn ætluð alþjóðlegri flugumferð. Áður hefur verið skýrt hvernig orðið flughöfn er notað í frumvarpi þessu. Í lögum hér á landi er ekki til skilgreining á flugvelli eða flughöfn sem ætluð er alþjóðlegri flugumferð. Í 1. mgr. 55. gr. loftferðalaga, nr. 34/1964, segir að flugvellir og önnur flugvirki skuli fullnægja þeim kröfum sem flugmálaráðherra setji, enda mæli lög eigi öðruvísi, og í 1. mgr. 63. gr. sömu laga segir að flugvellir, sem ætlaðir eru til almennrar notkunar, þarfnist viðurkenningar flugmálaráðherra.
    Í þessari grein er það ekki skilyrði að alþjóðleg flugumferð sé aðaluppistaða í rekstri flughafnar, heldur er nægjanlegt að frá flughöfn sé stunduð reglubundin alþjóðleg flugumferð þótt ferðir kunni að vera strjálar, enda sé brot framið vegna slíks flugs eða í tengslum við það.
    Verknaðaraðferðir eru þær sömu og í 2. mgr. greinarinnar, þ.e. ofbeldi eða hótun um ofbeldi. Verknaður þarf að beinast að persónum fyrst og fremst, en ekki einvörðungu að eignum, sbr. hins vegar 1. mgr. 165. gr. og 257. gr. hegningarlaga. Um almannahættu má vísa í greinargerð með XVIII. kafla laganna og 164. gr.
    Í 2. mgr. þessarar greinar frumvarpsins er gildandi lokaákvæði 2. mgr. 165. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. gr. laga nr. 41/1973, flutt og gert að sjálfstæðri málsgrein, auk þess sem gert er ráð fyrir að þau atriði taki einnig til 1. mgr. þessarar greinar frumvarpsins.

Um 5. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


BÓKUN


til að koma í veg fyrir ofbeldisverk í flughöfnum fyrir almenna alþjóðlega flugumferð, til viðbótar við samning um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna, sem gerður var í Montreal 23. september 1971.

RÍKI, SEM AÐILAR ERU AÐ BÓKUN ÞESSARI,

TELJA, að ólögmætar ofbeldisaðgerðir sem stofna mönnum í hættu eða fallnar eru til að stofna mönnum í hættu í flughöfnum fyrir almenna alþjóðlega flugumferð, eða rekstri slíkra flughafna, grafi undan trausti þjóða heims til öryggis innan þeirra og trufli öryggi og skipulag almennra flugsamgangna til skaða fyrir öll ríki.

TELJA slíkar aðgerðir mikið áhyggjuefni öllum þjóðum, og að til að fyrirbyggja þær sé brýn þörf á viðeigandi úrræðum til að refsa þeim sem brotlegir gerast;

TELJA nauðsynlegt, til að bregðast við slíkum ofbeldisaðgerðum í flughöfnum fyrir almenna alþjóðlega flugumferð, að setja viðbótarreglur við ákvæði samnings til að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna, sem gerður var í Montreal hinn 23. september 1971; og

HAFA ÞVÍ ORÐIÐ ÁSÁTT UM EFTIRFARANDI:

I. gr.


    Bókun þessi er til viðbótar við samning um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna, sem gerður var í Montreal 23. september 1971 (hér eftir nefndur „samningurinn“), og milli aðila að bókuninni skulu hún og samningurinn lesin og túlkuð saman sem einn löggerningur væri.

II. gr.


1.     Í 1. gr. samningsins skal bæta nýrri málsgrein, 1. mgr. bis:
„1 bis. Sá gerist sekur um afbrot, sem á ólögmætan hátt og af ásetningi, með því að nota hvers kyns útbúnað, efni eða vopn:

(a.)     beitir ofbeldi gegn einstaklingi í flughöfn fyrir almenna alþjóðlega flugumferð, sem veldur eða fallið er til að valda verulegu líkamstjóni eða bana; eða
(b.)     eyðileggur eða veldur alvarlegum skemmdum á búnaði flughafnar fyrir almenna alþjóðlega flugumferð, eða loftfars sem ekki er í rekstri og þar er staðsett, raskar starfsemi flughafnarinnar;

ef verknaðurinn stofnar í hættu eða er fallinn til að stofna í hættu öryggi innan flughafnarinnar.“

2.     Eftirfarandi orðum skal skotið inn í a-lið 2. mgr. 1. gr. samningsins á eftir orðunum „í 1. mgr.“:

eða 1. mgr. bis.“

III. gr.


1.     Við 5. gr. samningsins skal bæta nýrri málsgrein, 2. mgr. bis:

2 bis. Sérhvert samningsríki skal einnig gera nauðsynlegar ráðstafanir til að ná lögsögu yfir þeim afbrotum sem getur í 1. gr. 1. mgr. bis og 1. gr. 2. mgr., að því leyti sem síðastnefnd mgr. á við um þessi afbrot, í þeim tilvikum þegar meintur brotamaður dvelur á landsvæði þess ríkis og ríkið framselur hann ekki samkvæmt 8. gr. til þess ríkis sem um getur í a-lið 1. mgr. þessarar greinar.“

IV. gr.


    Bókun þessi skal liggja frammi til undirritunar í Montreal 24. febrúar 1988 af hálfu þeirra ríkja sem þátt taka í alþjóðaráðstefnu um loftferðarétt í Montreal 9.–24. febrúar 1988. Eftir 1. mars 1988 skal bókunin liggja frammi til undirritunar af hálfu allra ríkja í London, Moskvu, Washington og Montreal, uns hún öðlast gildi samkvæmt VI. gr.

V. gr.


1.     Bókun þessi er háð fullgildingu af hálfu þeirra ríkja sem hana undirrita.
2.     Hvert það ríki sem ekki er aðili að samningnum getur fullgilt bókun þessa ef það fullgildir um leið samninginn eða gerist aðili að honum samkvæmt 15. gr. hans.
3.     Fullgildingarskjöl skulu afhent ríkisstjórnum Sovétríkjanna, Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands og ríkisstjórn Bandaríkja Ameríku, eða Alþjóðaflugmálastofnuninni, en þeim er hér með falin varsla þeirra.

VI. gr.


1.     Er tíu ríki sem undirritað hafa bókun þessa hafa afhent skjöl sín um fullgildingu hennar, skal hún öðlast gildi á milli þeirra á þrítugasta degi frá því er tíunda fullgildingarskjal var afhent. Gagnvart hverju ríki sem síðar afhendir fullgildingarskjal sitt skal hún öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að fullgildingarskjalið var afhent.
2.     Um leið og bókun þessi öðlast gildi skal hún skrásett af vörsluaðilum í samræmi við ákvæði 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna og 83. gr. samþykktar um alþjóðaflugmál (Chicago 1944).

VII. gr.


1.     Er bókun þessi hefur öðlast gildi skal öllum ríkjum sem ekki hafa undirritað hana heimilt að gerast aðilar að henni.
2.     Hvert það ríki sem ekki er aðili að samningnum getur gerst aðili að bókun þessari ef það fullgildir um leið samninginn eða gerist aðili að honum samkvæmt 15. gr. hans.
3.     Aðildarskjöl skulu afhent vörsluaðilum, og skal aðild öðlast gildi þrjátíu dögum eftir afhendinguna.

VIII. gr.


1.     Hver aðili að bókun þessari getur sagt henni upp með skriflegri tilkynningu til vörsluaðilanna.
2.     Uppsögn öðlast gildi að liðnum sex mánuðum frá þeim degi er vörsluaðilar fengu tilkynninguna í hendur.
3.     Uppsögn bókunar þessarar skal ekki í sjálfu sér hafa uppsagnaráhrif á samninginn.
4.     Uppsögn samningsins af hálfu samningsríkis, eins og honum hefur verið breytt með bókun þessari, skal einnig hafa uppsagnaráhrif á bókun þessa.

IX. gr.


1.     Vörsluaðilar skulu án tafar tilkynna öllum ríkjum sem undirritað hafa bókun þessa eða gerst aðilar að henni, og öllum ríkjum sem undirritað hafa samninginn eða gerst aðilar að honum
(a.)     um dagsetningu hverrar undirritunar og afhendingar hvers fullgildingar- eða aðildarskjals að bókun þessari, og
(b.)     um móttöku hverrar tilkynningar um uppsögn bókunar þessarar, og móttökudag.
2.     Einnig skulu vörsluaðilar tilkynna ríkjum þeim er í 1. mgr. segir um gildistökudag bókunar þessarar samkvæmt VI. gr.

    Þessu til staðfestu hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð ríkisstjórna sinna, undirritað bókun þessa.

    GJÖRT í Montreal 23. febrúar 1988 í fjórum jafngildum textum á ensku, frönsku, rússnesku og spönsku, í fjórum frumritum.